27.9.2008 | 20:22
Tímabil hugsjóna, fyrirhyggjusemi og þjóðlegrar hollustu
Horfurnar eru ekki góðar fyrir íslensku þjóðina sem nú er á barmi gjaldþrots. Efnahagurinn er á hraðri niðurleið og hrun virðist vofa yfir okkar kæra gjaldmiðli.
Skuldir heimilanna hafa margfaldast og svo virðist sem aðeins fámenn elíta hafi hagnast á þessu svokallaða íslenska efnahagsundri.
Ákall eftir skyndilausnum kemur úr hverju horni samfélagsins og það virðist sem meðvirknin, blindnin og atkvæðaleitin sé skynseminni yfirsterkari.
Öllum virðist sama um orsakirnar, allir vilja lausnina og það strax, sama hver og hversu dýrkeypt hún er.
Í krafti frjálshyggju virðist sem hagkerfi Íslands sé orðið villtara en sjálft villta vestrið.
Allt er löglegt sama hversu siðlaust það er.
Allt skal framkvæmt, allt skal strípað, allt skal tekið í þessari nýfrjálshyggju.
Síðastliðnu vikur höfum við þurft að horfa upp á gengisfall eftir gengisfall ásamt verðbólguskoti sem engan endi sér á.
Framtíðin er ekki björt, vont getur versnað og vont mun versna.
Í nokkur ár hefur hagkerfi Íslendinga verið opið, opið í því samhengi að flæði erlends fjármagns og fólks til Íslands hefur verið algerlega frjálst í gegnum Evrópska efnahagssamninginn.
Hið frjálsa flæði hefur verið þjóð okkar dýrkeypt og sést það bersýnilega á núverandi skuldastöðu þjóðarinnar.
Um nokkurra ára skeið hafa fjárfestar tekið ódýr lán erlendis til þess eins að endurlána þau hérlendis og afla tekna á millivöxtum.
Með fyrrnefndu flæði fjármagns inn í hagkerfi íslands skapaðist mikil þensla á bæði fasteignamarkaði sem og hlutabréfamarkaði Íslands.
Verðgildi fasteigna sem og hlutabréfa hækkuðu og hækkuðu.
Milljarðar streymdu inn í hagkerfið og með einstrengingslegum fréttaflutningi fengu lán og skuldir á sig nýja merkingu.
Ekki þurfti lengur að borga upp tekin lán heldur nægði að fá annað lán til þess að endurfjármagna hið gamla.
Íslendingar upplifðu góðæri á lánum sem aldrei virtist ætla að taka enda en það hefur tekið enda.
Gervigóðærið hefur tekið enda og nú er nauðsynlegt að byrgja brunninn.
Tímabil sérhagsmunastjórnmála þarf að taka endi.
Það gengur ekki að einstaka stjórnmálamenn hvítþvoi sig af erfiðum málum en komi svo með geislabauginn þegar eitthvað vinsælt er í gangi.
Tímabil hugsjóna og langtímafyrirhyggjusemi þarf að vekja.
Hvernig viljum við sjá framtíðarhagkerfi íslensku þjóðarinnar og ég minni menn á að viðskiptahallinn og skuldirnar verða enn til staðar þótt við tökum upp Evru? Viljum við áframhaldandi misnotkun á galopnu hagkerfi þjóðarinnar og viljum við yfir höfuð hafa hagkerfi okkar galopið? Viljum við áframhaldandi ótakmarkað flæði fjármagns frá Evrópu? Viljum við áframhaldandi samþjöppun auðs á fárra manna hendur?
Sú alþjóðavæðing sem við Íslendingar erum að upplifa hefur þetta allt.
Það opna hagkerfi sem við Íslendingar búum við hefur þetta allt og meira til.
Þær samfélagslegu breytingar sem við Íslendingar erum að fá yfir okkur eru allt of miklar og koma allt of hratt.
Við erum að fá yfir okkur þau vandamál sem nágrannaþjóðir okkar reyna hvað mest að losna við og við vorum aldrei spurð álits.
Hvað vill íslenska þjóðin til að mynda þegar kemur að málefnum innflytjenda?
Vill þjóðin allt þetta streymi innflytjenda og þau samfélagslegu vandamál sem fylgja slíkri fjölgun í láglaunastétt landsins.
Hvað viljum við þegar kemur að skólakerfinu? Viljum við fá sama upplausnarástand í íslenska skólakerfið eins og ríkir í Bretlandi þegar enskumælandi kennari þarf jafnvel að kenna bekk sem talar 20 mismunandi tungumál og ekkert af því er enska. Hér á Íslandi eru þess dæmi um að 3-4 tungumál séu töluð í sama bekknum. Er slíkt álag á kennara eitthvað sem við viljum? Er slíkt álag bjóðandi okkar börnum? Er slík námsskerðing bjóðandi íslenskum börnum?
Hvað viljum við þegar kemur að heilbrigðiskerfinu? Viljum við svipað ástand á íslenskum sjúkrahúsum og er í sjúkrahúsum Englands? Viljum við að eldri borgarar séu settir á enn lengri biðlista? Við höfum bara ákveðið mikið af fagmenntuðu fólki í heilbrigðisgeiranum og við getum ekki séð tugþúsundum manna aukalega fyrir heilbrigðisþjónustu.
Hvað viljum við þegar kemur að réttindum íslenskra verkamanna? Viljum við áframhaldandi ógnarjafnvægi þar sem íslenski launamaðurinn hefur engin vopn í hendi sér á meðan atvinnurekandinn getur alltaf fundið ódýrari hæfari starfsmann í gegnum hið frjálsa flæði erlendra verkamanna? Viljum við skert lífskjör íslenskra launamanna? Viljum við sama ástand hér eins og í Skotlandi þar sem enginn kemst yfir lágmarkstaxta?
Hvað viljum við þegar kemur að aðlögun og skildum innflytjenda? Viljum við enda með sama menningarlega óstöðugleika og nágrannaþjóðir okkar þar sem stór hluti innflytjenda og jafnvel innfæddra barna og barnabarna neitar að aðlagast samfélaginu? Hvaða skyldur viljum við setja þeim sem fá leyfi til þess að setjast hér að?
Félagar
Tímabil sérhagsmunastjórnmála þarf að taka endi.
Drengskapur, heiður og þjóðleg hollusta skal endurvakin og þá sérstaklega innan vébanda okkar.
Erindið að ofan var flutt á fundinum Frjálslyndi flokkurinn - Nútíð og framtíð, sem haldinn var á Grand Hótel, þann 25. september 2008.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:25 | Facebook
Síður
Tenglar
Mínir tenglar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þjóðernissinnar eru allir eins. Telja sig bera af öðru fólki.
Fylgikvillar þeirra eru siðblinda og mannvonska.
Hér er einn sem þið lítið væntanega upp til, þið getið dáðst að ræðusnilldinni.
Þjóðleg hollusta Goebbels
Sieg heil (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 09:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.