Leita í fréttum mbl.is

Gleymum ekki hitaveitu Suðurnesja

Síðastliðin misseri hef ég orðið mikið var við mikla spillingarlykt hvað varðar einkavæðingarferli hinna ýmsa almenningseigna og þá einna helst einkavæðingarferli orkuauðlindarinnar.

Fyrrihluta síðasta árs var það ákveðið að hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja yrði seldur, sú ákvörðun var gerð með slíkum feluleik að það var ekki fyrr en þegar kom að sölunni sjálfri að umfjöllun hófst um málið. Strax þá fóru ýmsar spurningar að líta dagsins ljós.

  • Af hverju var tekin ákvörðun um slíka umbreytingu í skjóli kosninganna?
  • Af hverju var ekkert rætt um þetta í fjölmiðlum?
  • Af hverju þvertók Geir H. Haarde fyrir það í kastljósi að það stæði til þess að einkavæða í orkugeiranum?
  • Hvernig var verðmatið gert á Hitaveitu Suðurnesja?
  • Af hverju var sölunni háttað þannig að þeim ríku og fátækum sveitafélögum var stillt upp svipað og þegar auðlindir Rússlands fóru á uppboð og auðmönnum tókst að krækja í milljarða auðlindir fyrir fimmeyringa?
  • Af hverju var Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra að beita sér fyrir því að hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja yrði seldur?
  • Hverjir fleiri voru það sem þrýstu á þessa sölu?

Stuttu seinna var hlutur ríkisins í Hitaveitu suðurnesja seldur með rússnesku yfirbragði í skjóli sumars og stjórnmálaþreytu eftir kosningar en það var ekki það eina heldur ákváðu fjölmörg sveitafélög að fylgja fordæmi ríkisins og selja sinn hlut í Hitaveitunni.

Á örskotsstundu var gullegg þjóðarinnar komið að miklu leiti (32%) í eigu örfárra stórfyrirtækja undir nafninu Geysir Green Energy.

Gagnrýnisraddir voru því miður ekki háværar enda var þessi sala eins og segir að ofanverðu gerð í skjóli sumars og stjórnmálaþreytu kosningarinnar. Tímasetningin gat ekki verið betri fyrir auðlindaþjófnað af stórri stærðargráðu.

  • Enn fleiri spurningar vöknuðu?
  • Hverjir þrýstu á litlu sveitafélögin í að selja sinn hlut í Hitaveitu Suðurnesja?
  • Hvernig var sölunni hjá litlu sveitafélögunum háttað?
  • Hvernig var komið að verðmatinu á Hitaveitu Suðurnesja hvað varðar hluti sveitafélaganna?
  • Af hverju var enn verið að standa í rússneskri brunaútsölu?
  • Hvert er hlutverk Árna M. Mathiesen, Geir Haarde og Árna Sigfússonar í því sem margir telja arðráni aldarinnar?
  • Eru varðmenn þjóðarinnar viljandi að vinna gegn hagsmunum almennings?
  • Eru háttsettir stjórnmálamenn að stunda leynifundi með auðmönnum þjóðarinnar?

Mánuðirnir liðu, sumardagarnir fóru að syngja sitt síðasta, fólk fór að koma úr sumarfríum og fylgjast með stjórnmálum aftur eftir hvíld sumarsins.

Upp úr þurru fer útrásarfyrirtækið REI sem var þá að fullu í eigu Orkuveitu Reykjavíkur á lokaðan markað og örfáir útvaldir fá að kaupa í því hlut.

Eftir heitar umræður í fjölmiðlum kom allt í einu í ljós að REI var aldeilis ekki bara útrásarhluti Orkuveitu Reykjavíkur og inni í REI var 16% hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja, með öðrum orðum þá var þarna stórtækur blekkingarleikur í gangi.

Enn vöknuðu upp fleiri spurningar og eru þær orðnar margar.

  • Hvað er hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja að gera í fyrirtækinu REI sem á að vera útrásarhluti Orkuveitu Reykjavíkur ?
  • Af hverju er Árni Sigfússon að þrýsta á uppskiptingu Hitaveitu Suðurnesja ?
  • Hvert er hlutverk Vilhjálms Vilhjálmssonar í þessum vef og af hverju voru afdrifamiklir næturfundir haldnir á heimili hans ?

Tíminn leið og einkavæðing REI var dregin til baka. Enn er þó óljóst hvað verður um 16% hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja. Orkumálin róuðust niður en þá eins og skrattinn úr sauðarleggnum kom upp nýtt hitamál og enn kemur nafn núverandi fjármálaráðherra upp í fjölmiðlum í tengslum við mál sem svo sannarlega hefur sterka spillingarlykt. Íbúðir varnarliðsins voru seldar í skjóli nætur á slíku undirverði að í samanburði við fasteignaverð eyðibyggða og draugabæi virðast eyðibyggðir og draugabæir vera með himinhátt fasteignaverð.

Vöknuðu enn og aftur upp spurningar.

  • Af hverju fengu útvaldir auðmenn undir nafninu Háskólavellir að kaupa upp flest allar íbúðir varnarliðssvæðisins ?
  • Af hverju voru 150 fermetra íbúðir seldar á um 8,6 milljónir króna þegar raunvirði þeirra er um 20 milljónir.
  • Hvað með landið undir íbúðunum? Er það eignarland? Verður það hugsanlega selt til Reykjanesbæjar?
  • Af hverju fékk almenningur ekki að kaupa á sömu kjörum og af hverju fékk almenningur yfir höfuð ekki að kaupa ?
  • Hver eru tengsl fjármálaráðherra við söluna ?
  • Er það talið siðferðislega rétt að bróðir núverandi fjármálaráðherra Árna M. Mathiesen sé einn af eigendum í fyrirtæki sem á hlut í Háskólavöllum ?
  • Er það talið siðferðislega rétt að bræður háttvirtra stjórnmálamanna séu óbeinir kaupendur að ríkiseignum ?
  • Hvert er hlutverk Árna Sigfússonar bæjarstjóra Reykjanesbæjar í söluferlinu og af hverju finnst honum ekkert óeðlilegt við það að ríkiseignir voru þarna seldar á algeru gjafaverði ?

Ofangreindum spurningum verður sennilega aldrei svarað, þó þætti mér gaman að sjá einhvern þingmann veita þessu máli athygli og þá sérstaklega málefni Hitaveitu Suðurnesja sem margir telja að geti hundraðfaldast í virði.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 10. febrúar 2008

Viðar H. Guðjohnsen 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

L U F

Landssamband ungra frjálslyndra
Landssamband ungra frjálslyndra
Landssamband ungra frjálslyndra er vettvangur fyrir ungt fólk sem vill taka virkan þátt í stjórnmálastarfi Frjálslynda flokksins. Markmið sambandsins er að styrkja grunnstoðir Frjálslynda flokksins.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband