Leita í fréttum mbl.is

Aðalfundur Ungra frjálslyndra 25.-26. október

Aðalfundur Ungra frjálslyndra var haldinn helgina 25.-26. október.

Formlegi hluti aðalfundarins var haldinn laugardaginn 25. október og var þá kosin ný stjórn, lagabreytingar samþykktar, ásamt því að framtíð félagsins var rædd.

Samkvæmt nýjum lagasamþykktum er nú stjórn félagsins tvískipt í annars vegar framkvæmdarstjórn og hins vegar skipulagsstjórn.

Skipa eftirtaldir aðilar nýja stjórn Ungra frjálslyndra.

Framkvæmdarstjórn

Formaður:                                            Viðar Guðjohnsen
Varaformaður:                                      Björn Júlíus Grímsson
Stjórnarmaður í framkvæmdarstjórn:    Einar Einarsson
Stjórnarmaður í framkvæmdarstjórn:    Heba Pétursdóttir
Stjórnarmaður í framkvæmdarstjórn:    Hildur Sif Thorarensen

Skipulagsstjórn

Formaður skipulagsstjórnar:          Jóhann Kristjánsson
Stjórnarmaður í skipulagsstjórn:    Kjartan Þór Ingason
Stjórnarmaður í skipulagsstjórn:    Haraldur Gísli Sigfússon
Stjórnarmaður í skipulagsstjórn:    Aðalheiður Dögg Ármann
Stjórnarmaður í skipulagsstjórn:    Sigríður Linda Helgadóttir

Varamenn

1. Varamaður:                Ellert Smári Kristbergsson
2. Varamaður:                Hjalti Thomas Houe
3. Varamaður:                Ólafur Egill Jónsson

Sunnudaginn 26. október mætti forysta flokksins, þeir Guðjón Arnar, formaður flokksins, Magnús Þór, varaformaður flokksins og Jón Magnússon, þingflokksformaður flokksins.

Flutti forysta flokksins stutt ávarp og sat fyrir svörum að því loknu.

Þegar forystan hafði lokið við að svara spurningum félagsmanna hófust líflegar umræður um þau málefni sem lagt var til að stjórnin myndi leggja á oddinn á komandi ári.

Mun nýkjörin stjórn vinna að gerð ályktunar úr fundargerð aðalfundarins á næstu dögum sem svo verður send á helstu fjölmiðla landsins.

 


Aðalfundur helgina 25.-26. október

Aðalfundur Landssambands ungra frjálslyndra verður haldinn helgina 25.-26. október.

Dagskrá hefst klukkan 16:00, stundvíslega, báða dagana í félagshúsnæði Frjálslynda flokksins Skúlatúni 4, annarri hæð. 

Húsið opnar 15:45

Dagskrá:

Laugardagurinn 25. október

16:00 - Fundarstjóri setur fund og lýsir fyrirkomulagi aðalfundar.
16:15 - Formaður flytur skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár.
16:30 - Umræður um skýrslu stjórnar og framtíð samtakanna.
17:30 - Lagabreytingar
18:00 - Kosning formanns og varaformanns
18:15 - Kosning 3 meðstjórnenda í framkvæmdarstjórn samtakanna.
18:30 - Kosning formanns skipulagsstjórnar
18:45 - Kosning 5 stjórnarmeðlima og 3 varamanna í skipulagsstjórn.
19:00 - Fundi laugardaginn 25. október lýkur.

Sunnudagurinn 26. október

16:00 - Fundarstjóri setur fund.
16:05 - Formaður Landssambands ungra frjálslyndra ávarpar fundargesti.
16:15 - Ávarp Guðjóns Arnars, Magnúsar Þórs og Jóns Magnússonar
17:00 - Guðjón Arnar, Magnús Þór, Jón Magnússon og formaður Landssambands ungra frjálslyndra sitja fyrir svörum.
17:30 - Umræður um málefni og afgreiðsla ályktana.
18:30 - Önnur mál.
19:00 - Fundarslit.


Tímabil hugsjóna, fyrirhyggjusemi og þjóðlegrar hollustu

Fundarstjóri og félagar

Horfurnar eru ekki góðar fyrir íslensku þjóðina sem nú er á barmi gjaldþrots. Efnahagurinn er á hraðri niðurleið og hrun virðist vofa yfir okkar kæra gjaldmiðli.

Alkul á Íslandi Skuldir heimilanna hafa margfaldast og svo virðist sem aðeins fámenn elíta hafi hagnast á þessu svokallaða íslenska efnahagsundri.

Ákall eftir skyndilausnum kemur úr hverju horni samfélagsins og það virðist sem meðvirknin, blindnin og atkvæðaleitin sé skynseminni yfirsterkari.

Öllum virðist sama um orsakirnar, allir vilja lausnina og það strax, sama hver og hversu dýrkeypt hún er.

Í krafti frjálshyggju virðist sem hagkerfi Íslands sé orðið villtara en sjálft villta vestrið.

Allt er löglegt sama hversu siðlaust það er.

Allt skal framkvæmt, allt skal strípað, allt skal tekið í þessari nýfrjálshyggju.

Síðastliðnu vikur höfum við þurft að horfa upp á gengisfall eftir gengisfall ásamt verðbólguskoti sem engan endi sér á.

Framtíðin er ekki björt, vont getur versnað og vont mun versna.

Í nokkur ár hefur hagkerfi Íslendinga verið opið, opið í því samhengi að flæði erlends fjármagns og fólks til Íslands hefur verið algerlega frjálst í gegnum Evrópska efnahagssamninginn. Skuldir þjóðarinnar aukast og aukast

Hið frjálsa flæði hefur verið þjóð okkar dýrkeypt og sést það bersýnilega á núverandi skuldastöðu þjóðarinnar.

Um nokkurra ára skeið hafa fjárfestar tekið ódýr lán erlendis til þess eins að endurlána þau hérlendis og afla tekna á millivöxtum.

Með fyrrnefndu flæði fjármagns inn í hagkerfi íslands skapaðist mikil þensla á bæði fasteignamarkaði sem og hlutabréfamarkaði Íslands.

Verðgildi fasteigna sem og hlutabréfa hækkuðu og hækkuðu.

Milljarðar streymdu inn í hagkerfið og með einstrengingslegum fréttaflutningi fengu lán og skuldir á sig nýja merkingu.

Ekki þurfti lengur að borga upp tekin lán heldur nægði að fá annað lán til þess að endurfjármagna hið gamla.

Íslendingar upplifðu góðæri á lánum sem aldrei virtist ætla að taka enda en það hefur tekið enda.

Gervigóðærið hefur tekið enda og nú er nauðsynlegt að byrgja brunninn.

Tímabil sérhagsmunastjórnmála þarf að taka endi.

Það gengur ekki að einstaka stjórnmálamenn hvítþvoi sig af erfiðum málum en komi svo með geislabauginn þegar eitthvað vinsælt er í gangi.

Tímabil hugsjóna og langtímafyrirhyggjusemi þarf að vekja.

Hvernig viljum við sjá framtíðarhagkerfi íslensku þjóðarinnar og ég minni menn á að viðskiptahallinn og skuldirnar verða enn til staðar þótt við tökum upp Evru? Viljum við áframhaldandi misnotkun á galopnu hagkerfi þjóðarinnar og viljum við yfir höfuð hafa hagkerfi okkar galopið? Viljum við áframhaldandi ótakmarkað flæði fjármagns frá Evrópu? Viljum við áframhaldandi samþjöppun auðs á fárra manna hendur?

Sú alþjóðavæðing sem við Íslendingar erum að upplifa hefur þetta allt.

Það opna hagkerfi sem við Íslendingar búum við hefur þetta allt og meira til.

Þær samfélagslegu breytingar sem við Íslendingar erum að fá yfir okkur eru allt of miklar og koma allt of hratt.

Fjölgun erlendra fanga á Íslandi Við erum að fá yfir okkur þau vandamál sem nágrannaþjóðir okkar reyna hvað mest að losna við og við vorum aldrei spurð álits.

Hvað vill íslenska þjóðin til að mynda þegar kemur að málefnum innflytjenda?

Vill þjóðin allt þetta streymi innflytjenda og þau samfélagslegu vandamál sem fylgja slíkri fjölgun í  láglaunastétt landsins.

Hvað viljum við þegar kemur að skólakerfinu? Viljum við fá sama upplausnarástand í íslenska skólakerfið eins og ríkir í Bretlandi þegar enskumælandi kennari þarf jafnvel að kenna bekk sem talar 20 mismunandi tungumál og ekkert af því er enska. Hér á Íslandi eru þess dæmi um að 3-4 tungumál séu töluð í sama bekknum. Er slíkt álag á kennara eitthvað sem við viljum? Er slíkt álag bjóðandi okkar börnum? Er slík námsskerðing bjóðandi íslenskum börnum?

Hvað viljum við þegar kemur að heilbrigðiskerfinu? Viljum við svipað ástand á íslenskum sjúkrahúsum og er í sjúkrahúsum Englands? Viljum við að eldri borgarar séu settir á enn lengri biðlista? Við höfum bara ákveðið mikið af fagmenntuðu fólki í heilbrigðisgeiranum og við getum ekki séð tugþúsundum manna aukalega fyrir heilbrigðisþjónustu.

Hvað viljum við þegar kemur að réttindum íslenskra verkamanna? Viljum við áframhaldandi ógnarjafnvægi þar sem íslenski launamaðurinn hefur engin vopn í hendi sér á meðan atvinnurekandinn getur alltaf fundið ódýrari hæfari starfsmann í gegnum hið frjálsa flæði erlendra verkamanna? Viljum við skert lífskjör íslenskra launamanna? Viljum við sama ástand hér eins og í Skotlandi þar sem enginn kemst yfir lágmarkstaxta?

Hvað viljum við þegar kemur að aðlögun og skildum innflytjenda? Viljum við enda með sama menningarlega óstöðugleika og nágrannaþjóðir okkar þar sem stór hluti innflytjenda og jafnvel innfæddra barna og barnabarna neitar að aðlagast samfélaginu? Hvaða skyldur viljum við setja þeim sem fá leyfi til þess að setjast hér að?

Félagar

Tímabil sérhagsmunastjórnmála þarf að taka endi.

Drengskapur, heiður og þjóðleg hollusta skal endurvakin og þá sérstaklega innan vébanda okkar.

Viðar Helgi Guðjohnsen.

Erindið að ofan var flutt á fundinum Frjálslyndi flokkurinn - Nútíð og framtíð, sem haldinn var á Grand Hótel, þann 25. september 2008.


Ungir frjálslyndir: Hvetja Kristinn H. Gunnarsson til að segja af sér þingmennsku

Í ljósi þess að Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, hefur ítrekað sýnt vanhæfi sitt til að gegna þingstörfum í þágu Frjálslynda flokksins, flokksins sem kom honum á þing, hefur stjórn ungra frjálslyndra ákveðið að lýsa yfir algeru vantrausti á störf hans í þágu flokksins.

Hefur Kristinn ítrekað unnið gegn flokknum og reynt að afvegaleiða mikilvæg málefni sem varða þjóðarhagsmuni jafnt sem framtíð Íslendinga.

Hvað eftir annað hefur Kristinn valið þann kost að koma í bakið á samflokksmönnum sínum og bar þar hæst tilraun hans til uppreisnar gegn formanni og varaformanni flokksins í maí síðastliðnum.

Nú hefur Kristinn enn og aftur farið mikinn í fjölmiðlum með svívirðilegum yfirlýsingum um störf miðstjórnar og hæfni hennar til þess að gegna því embætti sem lög flokksins kveða á um.

Stjórn ungra frjálslyndra lýsir hér með yfir algeru vantrausti á Kristinn H. Gunnarsson sem þingmann Frjálslynda flokksins og hvetur hann til að segja af sér þingmennsku samstundis.

Fyrir hönd Ungra frjálslyndra

Viðar Guðjohnsen
Formaður Ungra frjálslyndra


Er þetta kerfi að virka?

Innflytjendalög: Það kerfi sem farið er eftir í dag er langt í frá að virka sem skyldi. Svo virðist sem hættulegir glæpamenn geti komið inn í landið án athugasemda yfirvalda. Engu virðist breyta þótt þeir hafi langan brotaferil að baki í heimalandinu. - Frjálslyndi flokkurinn benti á ýmislegt sem betur mætti fara í þessum málum, í kringum síðustu kosningar. Viðbrögðin voru athyglisverð.

Pólitískir andstæðingar Frjálslynda flokksins notuðu þessar undarlegu aðferðir í sinni kosningabaráttu, orð eins og "rasisti" eða "ala á ótta við innflytjendur" og svo framvegis, um málflutning frjálslyndra. Frjálslyndir bentu á ýmsar úrbætur á kerfinu og hófu að ræða innflytjendamálin á gagnrýninn hátt, en í stað málefnanlegrar umræðu um málið uppskáru þeir frá öðrum flokkum, þessar undarlegu ásakanir um rasisma. Mjög sérstakur málflutningur hjá mörgum, sérstaklega þá flokksmönnum Samfylkingarinnar & VG.

Í dag er ástandið hinsvegar í þessum málum, mun verra!

http://www.visir.is/article/20080915/FRETTIR01/320187942

Ekki hefur farið fram hjá neinum fjöldi alvarlegra glæpa frömdum af útlendingum hér á landi síðustu daga, hættulegar árásir bæði á almenning og lögreglu. Það hljóta allir að skilja að eitthvað þarf að breytast í þessum málum. En þetta er samt ekkert nýtt af nálinni.

Frjálslyndi flokkurinn varaði nefnilega við þessu í kringum síðustu kosningar, að m.a ef ekki væri athugaður bakgrunnur fólks sem hingað kæmi að þá kæmu hiklaust glæpamenn til Íslands sem nýttu sér þennan galla í kerfinu. Síðan ef þeir eru handteknir að þá tekur við annað gallað kerfi. Dómskerfið. Ég hef ekki tölu á því hve margir sluppu úr landi eftir alvarleg afbrot hér á landi í svokölluðu farbanni. Fórnarlömbin sátu eftir með sárt ennið.

Í stað þess að hlusta á málflutning Frjálslynda flokksins var þetta notað gegn honum í baráttu um atkvæði.

Lögreglan og stjórnvöld hljóta að bera ábyrgð á því hverjum þeir hleypa út á göturnar. Ef einstaklingi sem er með til dæmis, á sakaskrá sinni dóma fyrir alvarlegt ofbeldi, nauðganir eða morð jafnvel, er þrátt fyrir það hleypt til landsins og hann ekki stöðvaður í Leifsstöð og sá einstaklingur brýtur síðan alvarlega af sér hér á landi að þá hljóta stjórnvöld að vera ábyrg.

Ég vona í kjölfar þessa sé hægt að ræða innflytjendamál hér á landi án þess að fá yfir sig ásakanir um kynþáttahatur. Ég held að allir sjái í dag að upp er komið vandamál og ef það á ekki að versna að þá þarf að bregðast við.

Höfundur er í stjórn LUF.


Stuðningsyfirlýsing ungra frjálslyndra við Ásmund Jóhannsson

Ungir frjálslyndir lýsa yfir fullum stuðningi við Ásmund Jóhannsson, sjómann, sem nýverið hóf að nýta sér þau almennu mannréttindi sem ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að hundsa og brjóta í þágu örfárra fjármagnsafla.

Í málefnahandbók Frjálslynda flokksins segir að þau lönd sem eru meðlimir í Sameinuðu Þjóðunum eigi að uppfylla skyldur sínar gagnvart samtökunum og beri að svipta þau atkvæðisrétti sínum innan samtakanna geri þau það ekki.

Þar sem íslenska ríkið hefur ákveðið að uppfylla ekki þau tilmæli mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna að koma á fiskveiðistjórnunarkerfi sem brýtur ekki mannréttindi, ályktar stjórn Ungra frjálslynda að samkvæmt því ætti að svipta íslenska ríkið atkvæðisrétti sínum innan Sameinuðu þjóðanna.

Fyrir hönd stjórnar Ungra frjálslyndra,

Viðar Guðjohnsen,

Formaður Ungra frjálslyndra


Menningarlegur stöðugleiki

Menningarlegur stöðugleiki er grundvöllur sameiningar og stuðlar að auknum framförum þjóðarinnar. Til þess að viðhalda menningarlegum stöðugleika er mikilvægt að stefna ríkisins í málefnum útlendinga sé skýr.

Fyrir stuttu lagði ég það til við Landsráð Frjálslynda flokksins að Frjálslyndi flokkurinn leggi grundvallaráherslu á að íslenska þjóðin hafi ávallt stjórn á því hverjir og hversu margir útlendingar ákveða að flytjast hingað til skemmri eða lengri tíma.

Annars þurfa þeir sem fara með vald þjóðarinnar að gera sér grein fyrir vilja þjóðarinnar og hætta að fara hvað eftir annað gegn vilja hennar.

En hver er vilji þjóðarinnar?

Hvað vill þjóðin?

Hvað viljum við Íslendingar þegar kemur að málefnum flóttamanna? Hvað viljum við þegar kemur að málefnum farandverkamanna? Hvað viljum við þegar kemur að málefnum nýbúa? Hvað viljum við þegar kemur að málefnum ferðamanna?

Hvað viljum við Íslendingar þegar kemur að skólakerfinu? Viljum við fá sama upplausnarástand í íslenska skólakerfið eins og ríkir í Bretlandi þegar enskumælandi kennari þarf jafnvel að kenna bekk sem talar 20 mismunandi tungumál og ekkert af því er enska. Hér á Íslandi eru þess dæmi um að 3-4 tungumál séu töluð í sama bekknum. Er slíkt álag á kennara eitthvað sem við viljum? Er slíkt álag bjóðandi okkar börnum? Er slík námsskerðing bjóðandi íslenskum börnum?

Hvað viljum við Íslendingar þegar kemur að heilbrigðiskerfinu? Viljum við svipað ástand á íslenskum sjúkrahúsum og er í sjúkrahúsum Englands? Viljum við að eldri borgarar séu settir á enn lengri biðlista? Við höfum bara ákveðið mikið af fagmenntuðu fólki í heilbrigðisgeiranum og við getum ekki séð tugþúsundum manna aukalega fyrir heilbrigðisþjónustu.

Hvað viljum við Íslendingar þegar kemur að réttindum íslenskra verkamanna? Viljum við áframhaldandi ógnarjafnvægi þar sem íslenski launamaðurinn hefur engin vopn í hendi sér á meðan atvinnurekandinn getur alltaf fundið ódýrari hæfari starfsmann í gegnum hið frjálsa flæði erlendra verkamanna? Viljum við skert lífskjör íslenskra launamanna? Viljum við sama ástand hér eins og í Skotlandi þar sem enginn kemst yfir lágmarkstaxta?

Hvað viljum við Íslendingar þegar kemur að atvinnuleysisbótum? Viljum við leyfa farandverkamönnum að taka atvinnuleysisbætur? Hvað viljum við að einstaklingur þurfi að hafa verið búsettur hér lengi til þess að fá aðgang að atvinnuleysisbótum?

Hvað viljum við Íslendingar þegar kemur að glæpum útlendinga? Viljum við áframhaldandi aukningu á glæpum? Viljum við aukna skipulagningu í fíkniefnaheiminum? Viljum við aukna tíðni erlendra glæpahringa sem stunda mansal, fíkniefnasölu, líkamsmeiðingar og pyntingar? Viljum við að erlendir axa- eða sveðjumorðingjar geti leitað sér athvarfs á Íslandi?

Hvað viljum við Íslendingar þegar kemur að aðlögun og skildum innflytjenda? Viljum við enda með sama menningarlega óstöðugleika og nágrannaþjóðir okkar þar sem stór hluti innflytjenda og jafnvel innfæddra barna og barnabarna neitar að aðlagast samfélaginu? Hvaða skyldur viljum við setja þeim sem fá leyfi til þess að setjast hér að, hvort sem við köllum þá landnema eða innflytjendur.

Það er bara tímaspursmál hvenær strangari innflytjendastefna sem byggir á fjöldastýringu verður lögfest.

Af hverju ekki að koma með hana áður en allt fer á versta veg og menningarlegi óstöðugleikinn hefur étið upp sameiningu landans?

Viðar Helgi Guðjohnsen


Stjórn Ungra frjálslyndra fordæmir dráp hvítabjarnarins

Landssamband ungra frjálslyndra fordæmir þá ákvörðun Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra að láta fella hvítabjörninn sem gekk um hlíðar tindastóls síðastliðinn þriðjudag.

Með ákvörðun sinni hefur umhverfisráðherra fórnað mikilvægum einstaklingi í afar viðkvæmu vistkerfi norður heimskautsins og jafnframt atað hendur sínar blóði.

Stjórn ungra frjálslyndra skorar jafnframt á Þórunni Sveinbjarnardóttur að láta af embætti vegna þessara afglapa í embætti og bendir á að hvítabjörninn er friðaður samkvæmt íslenskum lögum.


Erum við raunverulega frjáls?

Okkur er frá blautu barnsbeini kennt það að við séum frjáls og fyrir það skulum við vera þakklát. Ég hef þó farið að efast um þetta svo kallaða frelsi sem við eigum að vera svo heppin með að hafa. Ég get samþykkt það að við séum frjálsari en margar aðrar þjóðir. Við búum ekki við hryðjuverkaógn, stríð eða annars konar ótta. Við höfum flest öll frjálsa hugsun og er ekki refsað fyrir það en frjáls hugsun er ekki það sama og að vera frjáls.

Fyrir nokkrum vikum hefði ég sagt að ég væri frjáls. Samkvæmt Rousseau erum við ekki frjáls nema við losnum undan hömlum og hlekkjum samfélagsins. Stór hluti af ákvörðunum okkar ráðast af fleiri aðilum og hlutum heldur en okkur einum. Ég, svo dæmi sé tekið, færi ekki að flytja til Afríku án þess að bera það undir manninn minn og  svo að auki myndi ég líklegast hugsa út í það hve langt ég væri að flytja í burtu frá fjölskyldu minni. Er ég þá ekki hlekkjuð við hina löngu keðju sem samfélagið hefur myndað?

Um leið og við verðum ástfangin, stofnum til sambands og förum að reiða  okkur á aðra/aðrar manneskjur hlekkjum við okkur niður á vissan hátt. Með þessu á ég við að við förum að miða okkar líf við líf einhvers annars og ákvarðanir okkar miðast við það að halda manneskjunni inni í lífi okkar, særa hana ekki og ef til vill gera hana hamingjusama. Með því að menntast erum við að hlekkja okkur niður. Í skóla skrifum við ritgerðir, gerum verkefni og annað til að hæfa kennaranum, fá góða einkunn og útskrifast með gráðu. Þar við tekur meira nám eða starfsvettvangur, þar sem það sama er uppi á teningnum.

Ég sá mynd um daginn sem heitir Dead Poet Society. Í einu atriðinu fer kennarinn, leikinn af Robin Williams, með nemendur sína út í hallargarðinn og segir þeim að hoppa. Allir hoppa nema einn sem neitar. Kennarinn bendir á að þetta sé dæmi um samfélag okkar. Við fylgjum hvor öðru og samhæfum okkur en það eru ávallt einhverjir sem skera sig úr og neita. Er þá sá sem neitaði frjáls? Hann fylgir ekki öðrum, fer sína leið og er ekki háður hinum ... spurning ...

Ég er sammála Rousseau um að á meðan við lifum til að hæfa samfélaginu getum við ekki verið fullkomlega frjáls. Ég tel að við reynum að vera eins frjáls og við getum orðið. En við erum ávallt háð einhverjum öðrum og er þá nokkurn tíman hægt að öðlast hið fullkomna frelsi? Það frelsi sem við höldum að við séum með - hið falska frelsi.

Hildur L Guðmundsdóttir


Gleymum ekki hitaveitu Suðurnesja

Síðastliðin misseri hef ég orðið mikið var við mikla spillingarlykt hvað varðar einkavæðingarferli hinna ýmsa almenningseigna og þá einna helst einkavæðingarferli orkuauðlindarinnar.

Fyrrihluta síðasta árs var það ákveðið að hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja yrði seldur, sú ákvörðun var gerð með slíkum feluleik að það var ekki fyrr en þegar kom að sölunni sjálfri að umfjöllun hófst um málið. Strax þá fóru ýmsar spurningar að líta dagsins ljós.

  • Af hverju var tekin ákvörðun um slíka umbreytingu í skjóli kosninganna?
  • Af hverju var ekkert rætt um þetta í fjölmiðlum?
  • Af hverju þvertók Geir H. Haarde fyrir það í kastljósi að það stæði til þess að einkavæða í orkugeiranum?
  • Hvernig var verðmatið gert á Hitaveitu Suðurnesja?
  • Af hverju var sölunni háttað þannig að þeim ríku og fátækum sveitafélögum var stillt upp svipað og þegar auðlindir Rússlands fóru á uppboð og auðmönnum tókst að krækja í milljarða auðlindir fyrir fimmeyringa?
  • Af hverju var Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra að beita sér fyrir því að hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja yrði seldur?
  • Hverjir fleiri voru það sem þrýstu á þessa sölu?

Stuttu seinna var hlutur ríkisins í Hitaveitu suðurnesja seldur með rússnesku yfirbragði í skjóli sumars og stjórnmálaþreytu eftir kosningar en það var ekki það eina heldur ákváðu fjölmörg sveitafélög að fylgja fordæmi ríkisins og selja sinn hlut í Hitaveitunni.

Á örskotsstundu var gullegg þjóðarinnar komið að miklu leiti (32%) í eigu örfárra stórfyrirtækja undir nafninu Geysir Green Energy.

Gagnrýnisraddir voru því miður ekki háværar enda var þessi sala eins og segir að ofanverðu gerð í skjóli sumars og stjórnmálaþreytu kosningarinnar. Tímasetningin gat ekki verið betri fyrir auðlindaþjófnað af stórri stærðargráðu.

  • Enn fleiri spurningar vöknuðu?
  • Hverjir þrýstu á litlu sveitafélögin í að selja sinn hlut í Hitaveitu Suðurnesja?
  • Hvernig var sölunni hjá litlu sveitafélögunum háttað?
  • Hvernig var komið að verðmatinu á Hitaveitu Suðurnesja hvað varðar hluti sveitafélaganna?
  • Af hverju var enn verið að standa í rússneskri brunaútsölu?
  • Hvert er hlutverk Árna M. Mathiesen, Geir Haarde og Árna Sigfússonar í því sem margir telja arðráni aldarinnar?
  • Eru varðmenn þjóðarinnar viljandi að vinna gegn hagsmunum almennings?
  • Eru háttsettir stjórnmálamenn að stunda leynifundi með auðmönnum þjóðarinnar?

Mánuðirnir liðu, sumardagarnir fóru að syngja sitt síðasta, fólk fór að koma úr sumarfríum og fylgjast með stjórnmálum aftur eftir hvíld sumarsins.

Upp úr þurru fer útrásarfyrirtækið REI sem var þá að fullu í eigu Orkuveitu Reykjavíkur á lokaðan markað og örfáir útvaldir fá að kaupa í því hlut.

Eftir heitar umræður í fjölmiðlum kom allt í einu í ljós að REI var aldeilis ekki bara útrásarhluti Orkuveitu Reykjavíkur og inni í REI var 16% hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja, með öðrum orðum þá var þarna stórtækur blekkingarleikur í gangi.

Enn vöknuðu upp fleiri spurningar og eru þær orðnar margar.

  • Hvað er hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja að gera í fyrirtækinu REI sem á að vera útrásarhluti Orkuveitu Reykjavíkur ?
  • Af hverju er Árni Sigfússon að þrýsta á uppskiptingu Hitaveitu Suðurnesja ?
  • Hvert er hlutverk Vilhjálms Vilhjálmssonar í þessum vef og af hverju voru afdrifamiklir næturfundir haldnir á heimili hans ?

Tíminn leið og einkavæðing REI var dregin til baka. Enn er þó óljóst hvað verður um 16% hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja. Orkumálin róuðust niður en þá eins og skrattinn úr sauðarleggnum kom upp nýtt hitamál og enn kemur nafn núverandi fjármálaráðherra upp í fjölmiðlum í tengslum við mál sem svo sannarlega hefur sterka spillingarlykt. Íbúðir varnarliðsins voru seldar í skjóli nætur á slíku undirverði að í samanburði við fasteignaverð eyðibyggða og draugabæi virðast eyðibyggðir og draugabæir vera með himinhátt fasteignaverð.

Vöknuðu enn og aftur upp spurningar.

  • Af hverju fengu útvaldir auðmenn undir nafninu Háskólavellir að kaupa upp flest allar íbúðir varnarliðssvæðisins ?
  • Af hverju voru 150 fermetra íbúðir seldar á um 8,6 milljónir króna þegar raunvirði þeirra er um 20 milljónir.
  • Hvað með landið undir íbúðunum? Er það eignarland? Verður það hugsanlega selt til Reykjanesbæjar?
  • Af hverju fékk almenningur ekki að kaupa á sömu kjörum og af hverju fékk almenningur yfir höfuð ekki að kaupa ?
  • Hver eru tengsl fjármálaráðherra við söluna ?
  • Er það talið siðferðislega rétt að bróðir núverandi fjármálaráðherra Árna M. Mathiesen sé einn af eigendum í fyrirtæki sem á hlut í Háskólavöllum ?
  • Er það talið siðferðislega rétt að bræður háttvirtra stjórnmálamanna séu óbeinir kaupendur að ríkiseignum ?
  • Hvert er hlutverk Árna Sigfússonar bæjarstjóra Reykjanesbæjar í söluferlinu og af hverju finnst honum ekkert óeðlilegt við það að ríkiseignir voru þarna seldar á algeru gjafaverði ?

Ofangreindum spurningum verður sennilega aldrei svarað, þó þætti mér gaman að sjá einhvern þingmann veita þessu máli athygli og þá sérstaklega málefni Hitaveitu Suðurnesja sem margir telja að geti hundraðfaldast í virði.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 10. febrúar 2008

Viðar H. Guðjohnsen 


Næsta síða »

L U F

Landssamband ungra frjálslyndra
Landssamband ungra frjálslyndra
Landssamband ungra frjálslyndra er vettvangur fyrir ungt fólk sem vill taka virkan þátt í stjórnmálastarfi Frjálslynda flokksins. Markmið sambandsins er að styrkja grunnstoðir Frjálslynda flokksins.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband